Skáklistin

Sögubrot og fyrstu félögin hérlendis.

 

Almennt er talið að skákin - þetta heillandi samband af list og íþróttum - hafi borist okkur frá Norðurlöndunum og Bretlandseyjum. Í fornum fræðum er víða minnst á skáklist t.d. í Heimskringlu Snorra Sturlusonar og Sturlungu og því sennilegt að skákin væri orðin nokkuð þekkt um 1200. Í hinu frábæra skáktímariti sínu "Í uppnámi" tilgreinir Willard Fiske (eða meðritstjórar hans) "..að skáktaflið komi frá Englandi". Af námsmönnum og stúdentum á síðari hluta 12.aldar, er ætla má að hafi meðal annars flutt skáktaflið til Íslands mætti nefna Þorlák hinn helga Þórhallsson biskup Í Skálholti (dó1193), Hrafn Sveinbjarnarson (d.1213), sem á árunum 1190-1200 ferðaðist víða um Evrópu, Pál Jónsson (d.1211) biskup í Skálholti, son Jóns Loftssonar í Odda, sem sagnaritarinn Snorri Sturluson dvaldi hjá á æskuárum sínum. Páll biskup dvaldi um1180 við skóla á Englandi. Skáktafls er oft getið í hetjuljóðum, hirðkvæðum og riddarasögum. Hér heima er að finna í fornum fræðum margvíslegan fróðleik um taflið í annálum, sóknarlýsingum og skemmtilegum taflvísum og í þó nokkrum erlendum ferðabókum.

Í Hólaskóla er tafls getið allt aftur til daga Bótólfts biskups (1238-1246) er djáknar tveir tefldu þar á staðnum og hann lagði til með öðrum klerkinum svo af urðu deilur og orðaskak. Guðbrandur Hólabiskup Þorláksson (1542-1627) á að hafa sagt ".. skák hefi ég teflt bæði ungur og gamall.."

Skákáhugi í Reykjavík og á Ísafirði.

 

Er dregur nær aldamótum er Þorvaldur læknir Jónsson (1837-1916) talinn bestur taflmanna vestra. Tímaritið „Í uppnámi" birtir árið 1902 bréfkorn frá honum: „..Um árið 1850 fór ég að fást við skák, og kynntist helztu skákmönnum í Reykjavík þar til 1863, að ég fluttist hingað vestur.( Á þessu tímabili ruddu hinar útlendu skákreglur sér til rúms hjá flestum, og skák var þá talsvert iðkuð í Reykjavík, bæði meðal eldri og yngri, einkum stúdenta og skólapilta í húsi föður míns, Jóns málaflutningamanns Guðmundssonar, þar sem margir þeirra voru daglegir gestir. Beztir skákmenn í þá tíð voru taldir í Reykjavík þeir bræður Pétur biskup og Jón yfirdómari Péturssynir og consul Smith. Þorvaldur segir enn fremur í bréfinu: „..Eigi er mér heldur kunnugt um, að neinn Íslendingur hafi fengist við „Blindspil" annar en síra Stefán...mjög sjaldgæft (er) að leikir íslenskra teflenda hafi verið skrifaðir upp jafnóðum. Veit ég þess að eins dæmi hér á Ísafirði nokkrum sinnum milli mín og Helga gullsmiðs Sigurgeirssonar..". Það mun vera elsta varðveitta skráð skák á Íslandi, tefld sennilega 1892.

Skákfrægð Grímseyinga.

Í skákritinu "Í uppnámi" 1902 er sagt frá bréfi Ingvars Guðmundssonar á Sveinagörðum í Grímsey til blaðsins : „..Það getur ekki heitið annað en að skáktaflið sé hér ungt í aldri, því 1846 fluttist það út hingað með prestinum síra Jóni Norðmann og þekkti þá engin til skákar, að minnsta kosti um langt tímabil....faðir menn lærði að tefla af síra Jóni ásamt Guðjóni bróður sínum.." Séra Jón sem endurlífgaði skáktaflið í Grímsey vígðist til Miðgarða í Grímsey árið 1846, en fékk Barð í Fljótum 1849 og hélt því brauði til dauðadags. Hann drukknaði í Hópsvatni árið 1877, 57ára gamall.

Ingvar Guðmundsson, oft nefndur taflkóngur, var fæddur 11.nóv.1845. Hann tefldi mikið og kynnti sér vel allan fróðleik um skákina, m.a. taflbækur og blöð, sem W. Fiske sendi bókasafninu. Hann fór einnig til Húsavíkur og fleiri staða til að tefla og „dáðust menn að snilli hans.." Hann flutti síðar (um 1920?) til Borgafjarðar eystra og dó þar 18.mai 1932. Annar öflugur skákmaður í eynni var Árni Þorkelsson (1841-1901) hreppstjóri, ættfræðingur og skáld.

Í tímaritinu er einnig greinarstúfur frá séra Matthíasi Eggertssyni (1865-1955) sem kom árið 1895 til Grímseyjar, þar segir svo:„..ég byrjaði að tefla á fyrstu skólaárum mínum 1877-1880 og hef teflt töluvert síðan.....Ingvar Guðmundsson er beztur af taflmönnum hér....og næstir Ingvari þeir feðgar Sæmundur Jónatansson á Sveinsstöðum og Sigurbjörn sonur hans.....af stúlkum eru ekki margar, sem tefla, helztar eru Björg Gísladóttir kona Ingvars...Halldóra Sæmundsdóttir, og kona mín Guðný Guðmundsdóttir, af börnum fyrir innan fermingaraldur: Þórunn dóttir Ingvars, og elztu börn mín Ásgeir og Kristín.

Með Steinólfi Geirdal (1875-1950) bættist Grímseyingum dugandi liðsmaður. Hann var framfarasinnaður á flestum sviðum og er hann kom sem kennari til Grímseyjar árið 1914 leiðbeinandi hann nemendum sínum í skáklistinni og að hans forgöngu var Taflfélag stofnað í eynni 13. des. 1917. Stofnendur voru 30 og félagsgjald 1 kr. fyrir karlmann en 75 aurar fyrir kvenfólk.

En hin margrómaða skáksnilli Grímseyinga var ekki þjóðsagan ein. Það sýndi ótvíræðan skákstyrk þeirra, þegar Albert sonur Ingvars Guðmundssonar tók þátt í Skákþingi Íslands árið 1917, sem Eggert Gilfer vann, en Albert varð í 2.sæti ásamt Íslandsmeistaranum Pétri Zóphaníassyni og Stefáni Ólafssyni sem varð þar í 2.sæti fjórða árið í röð, og síðar Íslandsmeistari 1919, 1921 og 1922. Albert var á þeim árum hafnarverkamaður í Reykjavík og vann 10 tíma á dag þótt hann ætti við heilsuleysi að stríða. Árangur þessa nýliða verður því að teljast óvæntur og stórglæsilegur. Albert var fæddur í Grímsey 1886, en flutti síðar til Borgarfjarðar eystra og varð brátt fremstur skákmanna þar. Hann dó á Seyðisfirði árið 1925 úr berklaveiki, langt um aldur fram. Bræður hans, Eymundur og Haraldur þóttu einnig öflugir skákmenn.

Annað dæmi um skákhæfni eyjaskeggja má nefna nokkru síðar þegar Ásgeir sonur séra Matthíasar varð í 3.sæti á fyrsta skákmóti Skákfélags Akureyrar vorið 1920, en þar fór Ari Guðmundsson með sigur af hólmi.  

                                          Fiske og aldamótavakningin

Um aldamót 1900 var skáklistin víða kunn hérlendis, en náði þó hæstum tindum, þegar ráðist var í stofnun formlega skákfélaga. Án alls efa var það Íslandsvinurinn professor D.Willard Fiske sem hafði undirbúið jarðveginn og skapað þessa áhugaöldu öðrum fremur með stórhöfðinglegum gjöfum, bókum,töflum og tímaritum til fjölmarga einstaklinga og skóla. Hann var bandarískur skákmeistari og skákrithöfundur f. 1831-d. 1904. Fiske tók m.a. þátt í fyrsta bandaríska meistaramótinu 1857 og skrifaði þá talsvert í skáktímarit. Hann fékk snemma áhuga á norrænum fræðum og stundaði nám í þeim um hríð í Kaupmannahöfn og Svíþjóð. Hann kynntist Jóni Sigurðssyni forseta og Gísla Brynjólssyni prófessor, sem kenndi honum íslensku ókeypis.

Hann kom til Íslands árið 1879 og var hér konunglega tekið m.a. vegna vinsamlegra og fróðlegra blaðagreina hans um íslensk málefni. Hann kvænttist árið 1880 og bjó suður í Flórens á Ítalíu, en við lát konu sinnar 1881 erfði hann ógrynni fjár og gaf ríkulega til félaga og stofnana á Íslandi sem fyrr segir.

 

                                              Taflfélag Reykjavíkur ríður á vaðið

Öflugasta félagið, TR, var fyrst í röðinni, stofnað 6. október 1900. Næst fyrsta félagið mun vera Taflfélag Akureyrar, stofnað 24. nóvember 1901 og mun nánar getið síðar.                           Sennilega er "Skákfélag Íslendinga" í Kaupmannahöfn hið þriðja í röðinni, stofnað 2. des. 1901 á Hótel Alaska". Af 20 stofnendum var kosin stjórn: Formaður stud.med. Eðvald  (Friðriksson) Möller, (1875-1960) var Akureyringur, sonur Friðriks Möller póstafgreiðslumanns þar. Hann var stúdent í Rvík. 1896 og lauk síðan fyrri hl. Prófi í læknisfræði í Khöfn. Lærði síðan sápugerð o.fl. Verslunarmaður á Stokkseyri og á Haganesvík til 1923. Síðan rak hann tóbaksbúð og ölstofu á Akureyri.

Veturinn 1901-1902 var einnig stofnað Skákfélag Íslendinga í Winnepeg.Stofnuð voru skákfélög á Ísafirði og í Bolungarvík og sennilega líka í Stykkishólmi og á Seyðisfirði. Næsta vetur bætast svo við Húsavík, Patreksfjörður, Keflavík og Eiðar.Húsvíkingar höfðu þó kynnst skákgyðjunni nokkru fyrr og var t.d. auglýst árið 1895 á skemmtun Framfarafélagsins: dansleikur, spil og töfl.  

 

                                       Skáklíf á Akureyri og Möðruvöllum

Á Akureyri virðist sem skáklistin hafi ætíð verið nokkur, en ekki áberandi. Að vísu var útgáfa litlu Spilabókarinnar 1858 á Akureyri merkur sögulegar áfangi, því hér var kominn fyrsti leiðarvísir um skák, sem prentaður hefur verið á íslensku. Útgefandi og sennilega höfundur var Jósef Grímsson gullsmiður (1825-1866). Hann flutti skömmu síðar, eða 1860, vestur í Skagafjörð og kemur alls ekki við sögu skáklistar í bænum. Engin skákvakning varð á Akureyri vegna þessarar fyrstu litlu kennslubókar. En erlendis þótti kverið all merkilegt innlegg í skáksöguna og ritaði W .Fiske um það í erlend skákrit 1880 og sömuleiðis Hollendingurinn A. v. d.Linde 1881. Í minningum frá Möðruvöllum örlar á skákiðkun skólapilta og ritar m.a. Þorleifur Jónsson (1864-1956) alþ.m. frá Hólum, sem var í skólanum veturinn 1881-2 svo:

Á sunnudögum skemmttu menn sér við spil eða manntafl, ef vont var veður..."

Nokkrir af framámönnum bæjarins höfðu einnig kynnst skákíþróttinni á skólaárum sínum syðra eða úti í Höfn.

 

                                            Eldra Taflfélagið á Akureyri

 Í minningum frá Möðruvöllum örlar á skákiðkun skólapilta og þó nokkrir embættismenn bæjarins höfðu kynnst skákíþróttinni í Reykjavíkurskóla og úti í Kaupmanna höfn. Loks var látið til skarar skríða þ.24.nóv 1901, þegar 6 menn komu saman hjá Boga veitingamanni Daníelssyni á Barðsnefi (Hafnarstræti 64) að ræða um stofnun taflfélags. Í stjórn voru kosnir Jón Jónsson söðlasmiðir á Oddeyri, Ísak Jónsson íshússtjóri á Oddeyri og (Óli) Steinback Stefánsson tannlæknir. Hér væri réttnefni undirbúningsnefnd, því nokkrum dögur síðar, 5.des., er Jóni Jónssyni, Otto Tulinius og Ásgeir Pjeturssyni falið að semja lagafrumvarp fyrir félagið og viku síðar, 12.des.1901 voru lögin samþykkt og nú kosin stjórn og skift verkum þannig.

Formaður Otto Tulinius (1869-1948) kaupmaður.

Skrifari Asgeir Pjetursson (1875-1942) útgerðarmaður

Gjaldkeri Jón Jónsson (1853-1913) söðlasmiður.

Eftir það skrifa þeir Otto og Ásgeir undir fundagerðir . Þannig var fyrsta stjórn TA skráð í Afmælisriti Taflfélags Reykjavíkur 50ára, árið 1950. Sömuleiðis W .Fiske í " Í Uppnámi" 1902, bls.33 "..og er formaðurinn talinn bestur taflmaður félagsins". Á aðalfundi 11.nóv.1902, eftir 1.starfsár, var stjórnarkjör þannig: "...þessir hlutu kosningu (þeir sömu og áður) Tulinius sem formaður með 8 atkv.,Ásgeir Pjetursson ritari með 5atkv.,Jón Jónsson söðlasmiður gjaldkeri með 5atkv. Formaðurinn gat þess að Willard Fiske hefði sent félaginu nokkra skákbæklinga og stakk upp á því að Fiske væri gjörður að heiðursfélaga ....og var það samþykkt með öllum atkv..." Á fundinum kom fram að leiga til Boga væri kr. 5 á mánuði. Árið 1903, 7.des. var félagið sameinað Lestrar- og tímaritafélagi bæjarins og nefnist nú Lestrar og Taflfélag akureyrar og kosin 3ja manna stjórn: Oddur Björnsson 12atkv., Otto Tulinius 11 atkv. Og Magnús Blöndal 6 atkv. Samþykkt var að bæta við  stjórnina tveimur mönnum af Oddeyri þeim Jóni Jónssyni og Ásgeiri Pjeturssyni. Starfsemi félagsins var fremur dauf fram til ársloka 1907 er síðustu reikningar sýna lífsmark með félaginu.

                                                                 Skólafólkið teflir í GA.

 En skákin.."..þessi hljóðlátalist.." var ekki með öllu horfin ú bæjarlífinu, því einmitt þetta ár, 1907, þann 23.mars, var stofnað skákfélag í Gagnfræðaskólanum (nú MA). Á fyrstu árum þess kom fram á sjónarsviðið firna sterkur skákmaður, sem átti eftir að verða einn af máttarstólpum skákíþróttarinnar á Íslandi. Ari Guðmundsson frá Þúfnavöllum hafði nú hvatt sér til hljóðs. Hann var fæddur 25.júlí 1890 að Sörlatungu og byrjaði strax að tefla 5 ára gamall. Á öðru skólaári sínu í GA er Ari orðinn formaður skákfélagsins og með glæsilegt vinningshlutfall eftir veturinn eða 41-1. Hann er einnig formaður síðasta skólaár sitt 1910-1911 með 53 vinn. Gegn 5. Næsta vetur heldur Skafti bróðir hans uppi heiðri ættarinnar og Hörgdæla með 41 gegn 7, en þann vetur var dóttir skólameistara, Hulda Á. Stefánsdóttir formaður.

                                 Skákfélag Akureyrar endurreist 1919

 

Ari bankaritari Guðmundsson var síðar helsti hvatamaður þess að skákfélagið var endurlífgað þ.10.febr.1919. og var hann kosinn fyrsti formaður þess. Með honum voru í stjórninni Þorsteinn Thorlacius (1886-1970) bóksali, sem gjaldkeri og Aðalsteinn Bjarnason (1887-1947) smiður í starf ritara. Um vorið kom Hálfdán Halldórsson í ritarastólinn. Ari varð sigurvegari á fyrsta opinbera skákmótinu hér í bæ, 1-11.mai 1920 og aftur varð hann Akureyrar meistari 1922 og 1923. Einnig var hann oft í verðlaunasætum á Íslandsmótum. Hann var upphafsmaður að stofnun Skáksambands Íslands á Blönduósi 1925 og fyrsti forseti sambandsins og kjörinn heiðursfélagi þess árið 1965. Ari fékkst einnig mikið við úrgáfu skákrita. Hann andaðist í Reykjavík 4.nóv.1975. Kona hans var Dýrleif Pálsdóttir frá Möðrufelli í Eyjafirði (1887-1976).

Starfsemi hins nýja félags varð strax æði þróttmikil og markaði spor í félagslífi bæjarins. Á fyrsta starfsárinu var samþykkt að gera póstmeistarann Friðrik Möller að heiðursfélaga. Hann var f.1846-d.1932. Friðrik var verslunarstjóri á Skagaströnd, Blönduósi og Eskifirði, en síðast póstmeistari á Ak.1904-1920. Kona hans var Ragnheiður Jónsdóttir. Meðal barna þeirra var Eðvald, sem stofnaði Skákfélagið í Khöfn og Valgerður sem gift var Otto Tulinius fyrsta formanni eldra TA. Vera má að þessi heiðursveiting Friðrik til handa, hafi jafnframt verið þakklætisvottur fyrir margháttaðan stuðning og forystu fjölskyldunnar í þágu skáklistarinnar. Margt forvitnilegt mætti rekja úr sögu Skákfélagsins t.d. þátttaka kvenna í skákkeppnum svo og óbilandi dugnaður margra keppenda og ekki síður stjórnenda. Þá er skákleikni þeirra Hörgdæla ekki síður verðugt rannsóknarefni en skákævintýri Grímseyinga.

 Skákfélag Akureyrar hefur orðið mörgum kærkomin tilbreyting í gráum hverdagsleiknum, kyrrlátt athvarf og jafnframt hollur skóli.

                                                                        Haraldur Sigurðsson

Í  1.tbl. Skákfélagsblaðinu 2000 birtist grein eftir Harald Sigurðsson fv. bankafulltrúa, sem hann tók saman,       Skáklistin í hundrað ár,       Sögubrot og fyrstu félög hérlendis.

Hér er stiklað af stóru  sem birtist í blaðinu. Skákfélag Akureyrar þakkar Haraldi fyrir þessi góðfúsleg  beiðni félagsins að hún sé einnig birt hér á heimasíðunni,  með einhvern fróðleik um skákina.   

 

Helstu heimildir:

Ól.Davíðsson :Ísl.gátur og skemmtanir útg. Khöfn 1887-92

W. Fiske..........:Í Uppnámi, útg. Flórens 1901-2

Bjarni Jónsson: Ísl. Hafnarstúd. Útg.BS, Ak.1949

Páll E Ólason   :Ísl.Æviskrár.útg.Rvk.1948-52.

Fundargerðarbækur Skákf. Ak. Eldra og y. 1901. 1919

Std. Steindórsson.: Grein í Heima er best 1. tbl. 1956

Sr. Pétur Sigurg.:Grímsey, útg. 1971

Dr.Ingimar Jónsson.: Alfræðibók um skák, Rvk. 1988

Jóh. Þórir Jónsson.: Bl.grein í Mbl. 17.6. 1972

Þráinn Guðmundsson Skáksamb. Ísl. Í 70 ár Rvk. 1996

Minningar frá Möðruvöllum. Umsjón Br. Sv. Ak. 1943

Ólafur Þ Kristj.:Kennaratal á Ísl. Útg.1958, 1965

Taflfélag Reykjavíkur 50 ára. Útg. Rvk. 1950

Jón Guðnason o.fl.: Merkir Ísl. Nýr fl.,V. Rvk. 1966

Fundargerðarbækur GA (MA)

 

 

 

Framsetning efnis

moya - Útgáfa 1.11 2007 - Stefna ehf

Innskráning